CE Vottun

Tæknilegar upplýsingar

Valmynd Tæknilegar upplýsingar

CE Merking

Byggingarvörutilskipan og ný merking á einangrunarvörum

Tilskipun Evrópusambandsins um byggingavörur hefur það að markmiði að útiloka allar tæknilegar hindranir á verslun með byggingarvörur milli landa á Evrópska efnahagssvæðinu. Í kjölfar tilskipunarinnar komu árið 2001 tíu nýir samhæfðir evrópskir framleiðslustaðlar fyrir einangrunarefni í byggingar. Í flestum löndum EU og á EFTA svæðinu hefur framleiðendum einangrunarefna verið skylt að vera með CE merkta vöru á markaði frá 1. mars 2003.

Ísland hefur samþykkt þessa tilskipun að fullu og í 5. hluta byggingarreglugerðar nr. 112/2012 er kveðið skýrt á um að byggingarvörur á markaði skuli vera CE merktar og uppfylli ákvæði reglugerðar um viðskipti með byggingarvörur.

Til að heimilt sé að setja CE merkingu á framleiðsluvöru þarf framleiðandi að undangengnum upphafsprófunum að fá staðfestingu á framleiðslu- og gæðakerfum sínum frá viðurkenndum aðila, sem hefur tilskilin leyfi stjórnvalda til eftirlits og úttekta.

Framleiðandi fær að öllum skilyrðum uppfylltum ákveðið CE framleiðslunúmer sem tilgreint er á DoP (Declaration of Performance) skjali sem aðgengilegt er á heimasíðu fyrirtækisins. Finna má DoP skjal undir nafni framleiðslutegundar sem er á merkimiða hverrar vörutegundar.

Steinullar hf hefur fengið CE vottun á almenna byggingareinangrun samkvæmt ÍST EN 13162/2012 +A1:2015, Lausull samkvæmt ÍST EN 14064-1/2010 og Tæknieinangrun samkvæmt ÍST EN 14303/2009 + A1:2013. Öll þessi vottorð og samræmisyfirlýsingar vegna þeirra eru aðgengilegar á heimsíðu.

Framleiðslueiginleikar

Fyrir framleiðslu steinullar gilda áðurnefndir staðlar. Þar segir til um að framleiðandi merki tiltekna framleiðslueiginleika á vöruna, umbúðir og/eða ytri pakkningar. Framleiðandi skal tilgreina á merkimiða til hvaða eiginleika CE merking nær samkvæmt staðlinum, ásamt því að tilgreina notkunarsvið framleiðsluvörunnar.

CE merking er vegabréf sem veitir heimild til sölu vöru á markaði á Evrópska efnahagssvæðinu. Að vara sé CE merkt segir ekkert um gæðastig vörunnar, því CE merking er ekki gæðamerki.

Varmaleiðni

Reiknireglur fyrir varmaleiðni (W/mK) einangrunar eftir samræmdum reglum á Norðurlöndunum voru felldar úr gildi með þessum breytingum. Áður hlupu reiknigildi á 0,003 W/mK en nú er reiknað með yfirlýstu lamdagildi framleiðanda, sem þrepast á 0,001 W/mK. LamdaD segir til um yfirlýsta varmaleiðnitölu einangrunar, en það er efniseiginleiki sem segir til um hve mikill varmi fer í gegnum 1 m þykkt efnislag þegar hitamunur er 1°C.

Varmaleiðni

Samkvæmt staðlinum er framleiðendum skylt að gefa upp varmaviðnám RD hverrar framleiðsluþykktar á markaði. RD segir til um hve mikil mótstaða er fyrir varmaflæði í gegnum viðkomandi þykkt einangrunarlags. Varmamótstaða RD er fundin með því að deila í þykkt á einangrunarlagi (í metrum) með varmaleiðni (lamda D). Varmamótstaða þrepast á 0,05 m²K/W.

Aðrar flokkanir

Samkvæmt staðlinum þurfa ýmsar aðrar upplýsingar að koma fram á merkimiða svo sem tegund efnis sem táknað er með MW fyrir steinull, framleiðslustaðallinn sem er ÍST EN 13162:2012 fyrir steinull, T1 – T7 gefa upplýsingar um nákvæmni uppgefinnar þykktar auk annarra merkinga sem við eiga, allt eftir notkunarsviði. Til dæmis er ekki ástæða til að gefa upp þrýstiþol í léttari framleiðsluflokkum sem ætlaðir eru til notkunar á milli stoða í plötuklæddum vegg. Auk þessa þurfa að koma fram upplýsingar um brunaflokkun efnisins sem er A1 fyrir framleiðslu frá Steinull hf. auk sjálfsagðra upplýsinga um framleiðanda vörunnar og framleiðsludag. Plötur með álímdum vindpappa falla í F flokk í bruna vegna pappans og eru framleiðslupplýsingar um þær vörutegundir á DoP skjölum.