FYRIRTÆKIÐ

Stjórn

Stjórnarformaður Gísli M. Auðbergsson.

Aðrir í stjórn Guðmundur H. Jónsson, Helgi Magnússon og Ingólfur Jóhannsson.

Framkvæmdarstjóri Stefán Logi Haraldsson.

Sagan

Fyrsta framleiðsla Steinullarverksmiðjunnar hf á Sauðárkróki kom á markaðinn seinnihluta árs 1985. Fyrir þann tíma hafði undirbúningur að starfssemi verksmiðjunnar staðið yfir í nokkur ár að frumkvæði heimamanna á Sauðárkróki, sem í þeim tilgangi stofnuðu með sér Steinullarfélagið h.f. Stofnendur Steinullarverksmiðjunnar h.f voru síðan Ríkissjóður, Partek AB, Sauðárkróksbær, Steinullarfélagið h.f, Kaupfélag Skagfirðinga og Samband Íslenskra Samvinnufélaga. Með aðkomu finnska steinullarframleiðandans Partek var tryggður aðgangur að nýjustu framleiðslutækni og hefur samstarf fyrirtækjanna reynst afar farsælt æ síðan. Við undirbúning verksmiðjunnar var alltaf miðað við að notað yrði rafmagn til bræðslu hráefnanna til þess að nýta mætti svarta fjörusandinn við Sauðárkrók og vatnsafl íslensku fallvatnanna, en nær allar steinullarverksmiðjur nota kol sem orkugjafa og vinna hráefnið úr bergi.

 Í stórum dráttum má segja að rekstur fyrirtækisins hafi verið í samræmi við upphaflegar áætlanir, mjög viðunandi hagnaður hefur verið af rekstrinum og það greitt eigendum sínum góðan arð. Frá upphafi var þó ljóst að Íslenska Ríkið og Sauðárkróksbær myndu í fyllingu tímans selja sína eignarhluti og tókst um það samkomulag vorið 2002, auk þess sem finnska fyrirtækið óskaði eftir að minnka sinn hlut. Samfara eignarhaldsbreytingunni var nafni fyrirtækisins breytt í Steinull hf og eru  núverandi eigendur BYKO hf 25%, Húsasmiðjan hf 25% Kaupfélag Skagfirðinga 50,0%.

Hjá Steinull hf starfa nú um 40 starfsmenn, framleitt er á þrískiptum vöktum allan sólarhringinn frá sunnudegi til föstudags. Velta síðustu ára hefur verið um 1300 milljónir og framleiðslan um 150 þús. m³ þar af hefur um þriðjungur verið fluttur út, mest til Færeyja og Englands.

Búnaður verksmiðjunnar hefur verið í stöðugri endurnýjun með það að markmiði að auka sjálfvirkni hans og bæta gæði framleiðslunnar. Ný pökkunarlína var tekin í notkun síðla árs 2001 og hefur þessi breyting haft í för með sér aukna hagræðingu bæði í rekstri verksmiðjunnar, sem og fyrir starfsmenn og viðskiptamenn hennar. Öll framleiðsla og pökkun er nú nánast sjálfvirk og nær allri vöru pakkað á vörubretti. Mestur hluti afurðanna er fluttur á innanlandsmarkað með bílum öfugt við það sem var í byrjun er flutningar í gámum með skipum voru ráðandi.

Virkt innra eftirlit framleiðslu og vöruþróun, ásamt eftirliti utanaðkomandi prófanastofa er mikilvægur þáttur í framleiðslu íslensku steinullarinnar. Allt frá upphafi hefur Steinull hf verið með virkt innra eftirlit. Á útflutningsmörkuðum eru afurðir fyrirtækisins vottaðar af til þess bærum rannsóknarstofnunum, sem einnig hafa haft með höndum eftirlitsþáttinn.

Í framhaldi af tilskipun Evrópusambandsins um CE merkingu á byggingavörum í þeim tilgangi að tryggja öryggi afurðanna og óheftan aðgang framleiðenda að mörkuðum í Evrópu hefur rannsóknarstofa fyrirtækisins verið styrkt verulega, m.a. með tækjakaupum. Vottun og heimild til CE merkingu afurðanna fékk fyrirtækið í júní 2004, ISO 9001 árið 2012 og ISO 14001 árið 2013 og stefnt að innleiðingu ISO 45001 árið 2024. Aukinn tækjabúnaður til rannsókna og enn öflugra innra eftirlit stuðlar líka að frekari þróun framleiðslunnar til aukinna gæða og fjölbreytni.