Hljóðeinangrun

Í byggingarreglugerð nr. 112/2012 11 hluta eru kröfur til hljóðvistar, er þar sett krafa um að staðallinn ÍST 45 C flokkur verði lágmarksviðmið fyrir velflestar nýjar byggingar, þá eru einnig gerðar sömu kröfur til eldri bygginga við breytingar eða breytta notkun þeirra.

Steinull er mikilvægur þáttur í hljóðeinangrandi byggingarhlutum. Einkum á þetta við um létta, lagskipta byggingarhluta þar sem steinull getur bætt hljóðeinangrun um allt að 10 – 15 dB án þess að eiginleg þykkt byggingarhlutans aukist. Algengara er þó að steinullin bæti hljóðeinangrun um í hefðbundnum innveggjum um ca. 6 – 8 dB.

Í sumum tilfellum er nægjanlegt að nota mjög létta steinull en í öðrum tilvikum er þörf á að nota stífari og þyngri ull. Oft virðist leika vafi á því hjá hönnuðum og iðnaðarmönnum hvaða gerðir steinullar er best að nota hverju sinni og á hvern hátt. Vill þá stundum brenna við að notuð er þung og dýrari steinull í hljóðeinangrandi byggingarhluta þar sem unnt er að ná sama árangri með léttari og ódýrari ull.

Steinull með rúmþyngd 60-70 kg/m³ hefur komið jafnbest út með tilliti til hljóðísogs samkvæmt hljóðmælingum á skalanum 100 – 3150 rið.

Steinull hf gaf út sérstakan bækling um hljóðeinangrun í sept 1988. Þar sem farið er nokkuð ítarlega í skýringar á hljóðfræði og settar upp skýringamyndir á því hvað má gera til að bæta hljóðvist í vinnusölum, kennslustofum og fl. Oft þarf ekki mikið til að minnka áreiti af hávaða og uppfylla settar kröfur um ómtíma og hljóðstyrk.