Einangrun á þaki

Sérstaklega er mikilvægt að vanda til einangrunar þaka. Í reglugerð er kveðið á um lágmarks kólnunartölur byggingarhluta, en nauðsynleg þykkt einangrunar fer eftir eiginleikum efnisins og gerð þaksins. Árangurinn ræðst síðan að miklu leyti af því hversu vel er vandað til allrar vinnu við einangrunina.

Þakull er framleidd í plötum úr hágæða steinull með áföstum vindpappa. Einangrunargildi ullarinnar gerir það að verkum að þak, byggt úr sperrum 245 mm á hæð einangrað með 220 mm Þakull uppfyllir kröfur byggingarreglugerðar nr. 112/2012 (með breytingum). Gert er ráð fyrir minnst 25 mm loftbili fyrir ofan einangrun. Útreikningur U-gilda er gerður í samræmi við ÍST EN ISO 6946 og ÍST 66:2016.

Ef einangrunin fellur ekki þétt að sperrum, samskeyti í efninu eru opin eða einangrunin er pressuð saman og nær því ekki réttri þykkt, þá höfum við ekki erindi sem erfiði. Mikilvægt er að endaskeyti platna falli þétt saman, til að þræðir platnanna fléttist saman og loft nái ekki að leika milli þeirra. Mælingar hafa sýnt að sé þessa gætt rýrnar einangrunargildi byggingarhlutans ekki. Til að tryggja sem best lokun endaskeyta skal setja masonítrenning yfir samskeyti. Slíkum renningi skal smeygja milli plötuenda og kverklista áður en næstu plötu er smeygt að og settur miðjuklossi til að tryggja að loftbil sé opið og renningar liggi þétt að vindpappa.