Einangrun steyptra útveggja

Rannsóknir NMÍ á útþornun steypu hafa sýnt vel kosti þess að einangra steypta útveggi að utanverðu og hafa hönnuðir í auknu mæli tekið mið af þessum niðurstöðum og fært einangrunina útfyrir. Íslenskar og erlendar rannsóknir sýna að sé nægilega þétt steinull valin undir loftræstar klæðningar verður lofthreyfing í ullinni óveruleg og sérstakt vindvarnarlag ónauðsynlegt. Á grundvelli þessara rannsókna hefur Steinull hf framleitt og markaðssett VEGGPLÖTU til þessara nota. Veggplata hefur rúmþyngd 80 kg/m3 og er ekki þörf á sérstakri vindvörn yfir hana.

Mörg hús hafa verið einangruð með þessum hætti á undanförnum árum og hafa skoðanir á þeim sýnt að raki og vindhreyfing hefur ekki haft nein merkjanleg áhrif á steinullina sem notuð hefur verið og einnig eru dæmi um að leki á eldri útveggjum hafi stöðvast við þessa aðgerð.

Einangrun utan á steyptan vegg kemur í veg fyrir að steypan frjósi og dregur jafnframt úr hitasveiflum í burðarvirkinu. Hætta á frostskemmdum minnkar eða hverfur og jafnframt lækkar hlutfallsraki lofts í steypunni samfara hærra hitastigi. Hætta á tæringu járnbendingar minnkar mikið eða hverfur alveg og einnig mun steypa þorna auðveldar á þennan hátt. Einangrunin kemur í veg fyrir kuldabrýr sem annars geta valdið óþarfa orkutapi og hættu á rakaþéttingu að innan.

Klæðning ver vegginn fyrir slagregni, veggurinn verður þurr og engin hætta er á steypuskemmdum.

Steyptan útvegg sem klæddur er með loftræstri klæðningu þar sem festivinklar fyrir burðarkerfi ganga inn í gegnum einangrunarlagið þarf að einangra með minnst 100 mm þykkri VEGGPLÖTU samkvæmt dæmi O.4 í staðli ÍST 66:2016 og kröfum byggingarreglugerðar 112/2012 um U-gildi þungra útveggja.

Þegar eldra hús er klætt, t.d. vegna viðhalds veggja, þá ætti alltaf að einangra undir klæðningu.